Stefnumótun 2020-2027

Verklag og tímaáætlun

Á þingi Golfsambands Íslands þann 19. nóvember 2011 var samþykkt að efna til stefnumótunarvinnu um framtíðarsýn, hlutverk og fjármögnun golfsambandsins næstu árin. Þingið skipaði sérstaka nefnd til að leggja drög að slíkri vinnu.  Á grundvelli tillagna þeirrar nefndar var ákveðið að kalla til þjóðfund sem haldinn var 24. mars 2012. Nefndin, ásamt ýmsu forystufólki innan golfhreyfingarinnar, vann síðan úr þeim hugmyndum sem þar komu fram. Niðurstaðan var sú að nauðsynlegt væri að leggja fram stefnumótun fyrir golfhreyfinguna í heild. Nefndin lagði fram drög að stefnumótun á formannafundi golfsambandsins þann 17. nóvember 2012. Formannafundurinn samþykkti að fela stjórn golfsambandsins að halda áfram vinnu við stefnumótunina, sem að lokum yrði lögð fram á þingi golfsambandsins þann 23. nóvember 2013, þar sem hún var síðan endanlega samþykkt. Unnið hefur verið eftir þessari stefnumótun undanfarin ár, margt gengið vel og annað gengið hægt. Nú er orðið tímabært að leggja fyrir Golfþing 2019 nýja stefnumótun og lagt er til að hún verði til átta ára.

Núverandi stefna hreyfingarinnar tekur á flestum þáttum sem snúa að hreyfingunni en ókostur hennar hefur einna helst verið sá hversu víðfeðm og opin hún er, þar með talið hlutverk golfsambandsins og verkaskipting þess og golfklúbbanna. Þá hefur tíminn leitt í ljós að þörf fyrir breyttar áherslur eru sjáanlegar í nánustu framtíð og má þar nefna málaflokka eins og málefni eldri kylfinga, mótamál, samskipti við hið opinbera, upplýsingatæknimál, lýðheilsu og umhverfismál.

Stefnumótun er mikilvæg langtímaáætlun sem er unnin til þess að verða leiðarljós að settum markmiðum. Hún hefur áhrif á alla þætti þeirrar starfsemi sem hún tekur til og hefur iðulega í för með sér einhverjar breytingar. Það er ekki hægt að vinna að stefnumótun nema með mikilli undirbúningsvinnu þar sem allir þættir starfseminnar eru skilgreindir og skoðaðir ítarlega. Í stefnumótun fyrir félagasamtök eins og íþróttafélög er mikilvægt að sem flestir félagsmenn taki þátt í mótun hennar. Golfhreyfingin er engin undantekning. Það er mikilvægt að sem flestir leggi hönd á plóginn, forystufólk sem og almennir kylfingar.

Á gildistíma núverandi stefnumótunar hefur margt gott áunnist. Sem dæmi mætti nefna stöðuga fjölgun kylfinga og góðan árangur afrekskylfinga. Útfærsla afreksstefnu golfhreyfingarinnar er gott dæmi um langtímaáætlun sem var skýr og einföld fyrir alla sem að komu, leikmenn, golfklúbba og Golfsambandið hvað varðar hlutverkaskipti, árangursmælingu og eftirfylgni. Árangurinn má glöggt sjá á síðustu árum sem endurspeglast í fleiri betri kylfingum í afreksstarfi klúbbanna alþjóðlegum samanburði landsliðsfólks og atvinnukylfinga hefur batnað samhliða þessu.

Við gerð fyrri stefnumótunar kom fram mikilvægi þess að vinna sameiginlega að stefnumótun fyrir golfhreyfinguna í heild, þar sem fram komi hvaða hlutverk, verkefni og árangri golfhreyfingin vill ná og hvert hlutverk Golfsambandsins eigi að vera. Vandi þeirrar stefnumótunar var hins vegar sá að þessi atriði voru ekki nægilega vel skilgreind.  Vegna þess er lagt til að þessu sinni að leggja fyrst og fremst áherslu á málefni GSÍ í þessari stefnumótun sem byggir að sjálfsögðu á markmiðum sem og áherslum golfhreyfingarinnar í heild.  Það er verkefni forystufólks golfhreyfingarinnar að eiga frumkvæðið að stefnumótuninni. Forystufólkið þarf að finna leiðir til þess að fá almenna félagsmenn til þess að vera þátttakendur við gerð hennar. Meginmarkmið félagsstarfsins er venjulega þekkt en markmið einstakra málefna eru oft á tíðum óljósari. Með þátttöku fjölda forystufólks og almennra félagsmanna í gerð stefnumótunar fæst sameiginleg þekking á því hvert og hvernig eigi að ná settum markmiðum.

Í byrjun árs fór stjórn Golfsambandsins að huga að vinnslu stefnumótunarinnar fyrir tímabilið 2020 til 2027. Á fundi stjórnarinnar þann 11. júní 2018 var samþykkt að skipa stýrihóp sem hefði yfirumsjón með vinnu að gerð stefnumótunarinnar. Stýrihópinn skipa Haukur Örn Birgisson, formaður, Eggert Á, Sverrisson og Brynjar Eldon Geirsson.  Stýrihópurinn lagði til að skipta starfsemi golfhreyfingarinnar í 11 málaflokka og að starfsnefndir myndu sjá um vinnu og mótun frumdraga að stefnumótuninni og að hver starfsnefnd ynni undir forystu stjórnarmanns í GSÍ til þess að tryggja samræmingu vinnunnar og betri tengsl milli starfsnefndanna. Lögð er áhersla á að starfsnefndirnar reyni að fá sem flesta úr golfhreyfingunni að borðinu við vinnu við sinn málaflokk. Stýrihópurinn leggur áherslu á að umræður innan starfsnefndanna verði eins opnar og hreinskilnar og kostur er. Það er mikilvægt að taka til umræðu öll sjónarmið og síðan er það verkefni við endanlega útfærslu stefnumótunarinnar að ná sem mestri samstöðu innan golfhreyfingarinnar um hvert stefna skuli til ársloka 2027.

Eftirfarandi málaflokkar voru settir fram ásamt því að eftirfarandi stjórnarmenn voru fengnir til að leiða starfsnefndirnar

Afreksmál: Jón Steindór Árnason
Alþjóðamál: Haukur Örn Birgisson
Eldri kylfingar: Jón B. Stefánsson
Golf, lýðheilsa og samfélag: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Móta- og dómaramál: Hörður Geirsson
Rekstur- og fjármál: Kristín Guðmundsdóttir
Skipulags- og lagamál: Eggert Ágúst Sverrisson
Upplýsingatæknimál: Bergsteinn Hjörleifsson
Vallar- og umhverfismál: Gunnar K. Gunnarsson
Útbreiðsla- og fræðslumál: Hansína Þorkelsdóttir
Útgáfumál: Hulda Bjarnadóttir

Fyrstu verkefni starfsnefnda voru eftirfarandi og bar þeim að skila vinnu til stýrihóps fyrir 31. október 2018. Lögð var áhersla á að í vinnu nefndanna fælist undirbúningsvinna en ekki vinnsla á drögum um stefnu. Verkefnin voru eftirfarandi:

 1. Greining á árangri stefnumótunar 2013 – 2018, hvað hefur áunnist og hvað hefur ekki gengið eftir.
 2. Greining á núverandi stöðu málaflokks (áherslur, vægi, vandamál og tækifæri).
 3. Hvaða megin spurningum telur nefndin að þurfi að svara og þeim spurningum verður varpað fram til íhugunar á formannafundi í nóvember 2018.

Næstu skref eru skipulögð á eftirfarandi hátt:

 1. Stýrihópur kynnir fyrir formannafundi þann 24. nóvember 2018 áherslur og tímaramma fyrir vinnu við stefnumótun, sem lögð verður fyrir Golfþing í nóvember 2019, ásamt yfirliti yfir helstu álitamál sem fram koma í skýrslum starfsnefnda.
 2. Í desember 2018 verður send út ítarleg könnun til stjórna allra golfklúbba í landinu. Þar skulu koma fram ýmsar spurningar (þröngar og opnar) í hverjum málaflokki. Starfsnefndir undirbúi spurningar fyrir sinn málaflokk í samvinnu við stýrihóp.
 3. Gert er ráð fyrir að svör frá golfklúbbum við könnuninni berist stýrihópi fyrir lok janúar 2019.
 4. Frá janúar til loka marsmánaðar fari fram vinna við stefnumótun innan starfsnefnda og stýrihóps. Starfsnefndir hafa frjálsar hendur við vinnu, geta kallað á félaga innan golfhreyfingar til skrafs og ráðagerða, boðað til stærri funda um sín málefni o.s.frv. Starfsnefndir skulu skila drögum til stýrihóps eigi síðar en 31. mars 2019.Framsetning starfsnefnda skal vera samræmd.
  Þar komi fram fyrir hvern málaflokk:
  a. Markmið golfhreyfingarinnar
  b. Hlutverk GSÍ annars vegar og golfklúbbanna hins vegar
  c. Áherslur og forgangsröðun verkefna innan málaflokksins
  d. Aðgerðir sem miða að því að fylgja markmiðum eftir og tryggja árangur
  e. Með hvaða hætti meta á árangur einstakra aðgerða
  f. Eftirfylgni með að markmiðum sé náð á tímabilinu
 5. Formannafundur vegna stefnumótunarinnar verður boðaður í lok apríl eða byrjun maí 2019, þar sem fyrstu drög að stefnumótun verða kynnt og rædd.
 6. Fyrir 15. maí 2019 verði endurskoðuð drög að stefnumótun lögð fyrir stjórnarfund, að teknu tilliti til umræðna á formannafundi.
 7. Á tímabilinu 15. maí til 15. september 2019 verða haldnir fundir með stjórnum golfklúbba og drög að nýrri stefnumótun kynnt.
 8. Á tímabilinu 15. september til 15. október 2019 verður unnið að endanlegri útfærslu á stefnumótun og hún lögð fyrir stjórn til endanlegrar samþykktar.
 9. Þann 20. október 2019 verða drög að stefnumótun send öllum golfklúbbum til umsagnar. Breytingatillögur þurfa að berast stjórn ekki síðar en 3. nóvember 2019. Breytingatillögur verða sérstaklega kynntar og ræddar á Golfþingi, samfara almennri umræðu um stefnumótun tímabilsins 2020 – 2027.

Á formannafundi þann 24. nóvember 2018 verða lagðar fram eftirfarandi spurningar sem undirbúningur að vinnu næstu mánaða við stefnumótunina. Tilgangurinn með því að varpa þessum spurningum fram er að skapa umræður um þau atriði sem talið er að séu grundvallarmálefni hvers málaflokks. Spurningarnar eru opnar og bjóða upp á frjáls og opin skoðanaskipti á vettvangi hreyfingarinnar. Svörin við spurningunum verða ólík en verða vonandi til þess að styrkja vinnuna á næstu misserum.

Afreksmál:

 • Hver eiga markmið golfhreyfingarinnar í afreksmálum að vera?
 • Hvert á hlutverk GSÍ að vera í þróun afrekskylfinga?
 • Á GSÍ að senda kylfinga á önnur mót en Evrópumót og Heimsmeistaramót?
 • Á GSÍ að sinna atvinnukylfingum?

Alþjóðamál

 • Á GSÍ að taka virkan þátt í alþjóðlegu starfi?
 • Á GSÍ að vera aðili erlendra golfsamtaka, EGA, EDGA og IGF, ESGA, Sterf, GEO?
 • Á GSÍ að standa fyrir alþjóðlegum golfmótum?

Golf, lýðheilsa og samfélag

 • Á lýðheilsa og golf sem almennings- og fjölskylduíþrótt að spila stærra hlutverk í starfsemi GSÍ?
 • Á að leggja meiri áherslu á barna- og unglingastarf?
 • Á að leggja meiri áherslu á fjölgun kvenna í golfhreyfingunni?
 • Á að dýpka samstarf við skóla, heilbrigðisstofnanir og félög eldri borgara?
 • Hvernig verður golfíþróttin samkeppnishæfari í samanburði við aðrar almenningsíþróttir hjá tiltölulega ungu fólki sem hefur lokið keppni í öðrum íþróttum?

Eldri kylfingar

 • Hvert á hlutverk GSÍ að vera gagnvart eldri afrekskylfingum?
 • Hvert á hlutverk GSÍ að vera gagnvart mótahaldi eldri kylfinga?

Móta- og dómaramál

 • Hver á að vera tilgangurinn með mótahaldi GSÍ?
 • Hverjar eiga helstu áherslurnar í mótahaldi GSÍ að vera?
 • Hversu mikil á aðkoma GSÍ að vera að framkvæmd GSÍ móta?
 • Hversu mikla áherslu á að leggja á að bæta leikhraða?
 • Á að leggja meiri áherslu á agamál og hegðunarreglur?

Rekstur og fjármál

 • Á rekstur GSÍ alltaf að vera hallalaus?
 • Hvert á eigið fé GSÍ að vera?
 • Hvað eiga félagagjöldin að vera há, með hliðsjón af þjónustuhlutverki GSÍ, og hvernig eiga þau að þróast?
 • Hvernig skal hátta skiptingu tekjuöflunar GSÍ með félagagjöldum, sjálfsaflafé og styrkjum?
 • Hvernig á að tryggja sem mest gegnsæi fjármála GSÍ?

Skipulags- og lagamál

 • Er þörf á því að endurskoða tilgang GSÍ með tilliti til þjóðfélagsbreytinga, m.a. áherslna ÍSÍ á afreksmál og almenningsíþróttir?
 • Er skynsamlegt að jafna hlut landssvæða við kosningu stjórnar GSÍ á þann veg að landsvæði tilnefni hluta stjórnarmanna í stjórn GSÍ?
 • Er skynsamlegt að styrkja rekstur minni golfklúbba úti á landi með því að heimila afslátt af félagagjöldum til GSÍ?
 • Er rétt að styrkja ákvæði um innheimtu félagagjalda til GSÍ með ákvæðum um vexti af ógreiddum félagagjöldum og skilgreiningu gjaldanna sem vörslufé?

Upplýsingatæknimál

 • Hvaða hlutverki á sameiginlegt upplýsingakerfi golfhreyfingarinnar að gegna?
 • Hvaða leið á GSÍ að velja í upplýsingatæknimálum?
 • Á að veita utanaðkomandi aðilum heimild til að nýta sér gögn úr sameiginlegum gagnagrunni golfhreyfingarinnar?

Vallar- og umhverfismál

 • Hvert á hlutverk GSÍ í umhverfismálum að vera?
 • Hver eiga markmið golfhreyfingarinnar í tengslum við umhverfisvottun golfvalla að vera?
 • Vill golfhreyfingin sjá stigskiptingu keppnisvalla sem verður síðan leiðandi í úthlutun stæðstu golfviðburða GSÍ?

Útbreiðslu- og fræðslumál

 • Hver eiga lykilmarkmið og áherslur GSÍ að vera í útbreiðslu- og fræðslumálum?
 • Hvaða þörf er fyrir fræðslu og fræðslutengt efni?
 • Hvernig geta GSÍ og golfklúbbar unnið í sameiningu að útbreiðslu- og fræðslumálum?
 • Á GSÍ að taka meira þátt í alþjóðlegum verkefnum á sviði útbreiðslu- og fræðslumála?

Útgáfumál

 • Á heimasíða GSÍ að vera öflug fréttasíða?
 • Á GSÍ að hafa með höndum útgáfustarfsemi?
 • Á að hætta með eða fjölga miðlum?
 • Á að hætta með eða fjölga útgáfuleiðum?
 • Hvaða fræðslutengda efni telja klúbbarnir að þörf sé á?
Valmynd