Skýrsla stjórnar

Kæru félagar.

Þann 3. september síðastliðinn féll Sveinn Snorrason, fyrrum forseti Golfsambands Íslands, frá. Sveinn fæddist þann 21. maí 1925 og hefur verið einn virkasti kylfingur landsins síðastliðin 60 ár. Sveinn var forseti Golfsambands Íslands á árunum 1962-1969 en þar áður hafði hann setið í stjórn Golfklúbbs Reykjavíkur. Sveinn var í fararbroddi við uppbyggingu Golfklúbbs Reykjavíkur og golfsambandsins við afar erfiðar aðstæður og átti stóran þátt í þeirri velgengni sem klúbbur og samband nutu á árunum sem á eftir komu. Í forsetatíð Sveins fjölgaði golfklúbbum landsins úr þremur í tólf og gegndi Sveinn stóru hlutverki í þeirri miklu uppbyggingu sem átti sér stað innan golfíþróttarinnar á þessum árum. Eftir að Sveinn lét af störfum sem forseti sambandsins, starfaði hann lengi í fjölmörgum nefndum og ráðum á vegum GSÍ, auk þess sem hann var einn af stofnendum Landssamtaka eldri kylfinga, LEK. Hann var fyrsti formaður samtakanna og er því óhætt að segja að hann hafi markað varanleg og djúp spor í sögu íþróttarinnar á Íslandi. Við færum fjölskyldu hans samúðarkveðjur og þökkum Sveini fyrir hans mikla framlag í gegnum áratugina.

Nú þegar 76. starfsári Golfsambands Íslands er að ljúka er tilefni að gera upp golftímabilið og víkja að helstu atriðum ársins.

Á þessu ári hefur stjórn golfsambandsins og starfsfólk, líkt og undanfarin ár, unnið samkvæmt þeirri stefnu sem samþykkt var á Golþingi árið 2013.

Stjórn og starfsfólk
Stjórn Golfsambands Íslands var þannig skipuð á síðasta starfsári:

Forseti:
Haukur Örn Birgisson, GO

Aðalstjórn:
Bergsteinn Hjörleifsson GK, formaður upplýsingatækninefndar
Eggert Á. Sverrisson GF, varaforseti
Gunnar K. Gunnarsson GV, formaður umhverfis- og vallarnefndar
Hansína Þorkelsdóttir GKG, ritari og formaður útbreiðslunefndar
Hörður Geirsson GK, formaður mótanefndar
Hulda Bjarnasdóttir NK, formaður útgáfunefndar
Jón B. Stefánsson GR, formaður landsnefndar eldri kylfinga
Jón S. Árnason GA, formaður afreksnefndar
Kristín Guðmundsdóttir GÖ, gjaldkeri og formaður fjárhagsnefndar
Þorgerður K. Gunnarsdóttir GK, formaður laganefndar

Á skrifstofu sambandsins störfuðu þeir Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri, Stefán Garðarsson, markaðs- og sölustjóri, Arnar Geirsson, kerfis- og skrifstofustjóri, Sigurður Elvar Þórólfsson, útgáfustjóri og Jussi Pitkanen, afrekstjóri. Þá starfaði Einar Ásbjörnsson hjá sambandinu yfir sumarmánuðina við mótahald.

Stjórn golfsambandsins hefur haldið alls 12 fundi á starfsárinu og hafa þeir verið vel sóttir af stjórnarmönnum. Á fundunum hafa stjórnarmenn átt góðar og gagnlegar umræður, skipst á skoðunum en ávallt komist að sameiginlegri niðurstöðu. Stjórn hefur haldið áfram uppteknum hætti og birtir allar fundargerðir stjórnarfunda á heimasíðu sambandsins, www.golf.is.

Starfsnefndir sambandsins hafa verið opnar félagsmönnum úr hreyfingunni og er óhætt að segja að fjölmargir hafi komið að starfi golfsambandsins með þessum hætti. Við viljum færa öllum þessum einstaklingum okkar bestu þakkir fyrir samstarfið á tímabilinu.

Mótahald
Haldin hafa verið 35 GSÍ-mót á árinu þar sem einstaklingsmótin hafa verið 23 talsins en liðsmótin 12. Alls voru 20 golfklúbbar sem tóku að sér að halda mót á vegum GSÍ og erum við þakklát fyrir þann velvilja sem klúbbar hafa sýnt mótastarfi sambandsins á árinu.

Á Eimskipsmótaröðinni 2017-2018 tóku 150 keppendur þátt, 118 karlar og 32 konur. Keppendur komu frá 19 klúbbum. Til samanburðar tóku tóku 153 keppendur þátt á tímabilinu 2016-2017, 32 konur og 121 karl frá 22 golfklúbbum.

Við viljum nota tækifærið og óska öllum sigurvegurum ársins til hamingju með árangurinn og ekki síst þeim Axel Bóassyni og Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur sem urðu Íslandsmeistarar í Vestmannaeyjum.

Íslandsbankamótaröðin gekk vel og var þátttakan góð. Alls tóku 178 þátttakendur, frá samtals 14 golfkúbbum, þátt á mótaröðinni en til sambanburðar voru þeir 208 árið 2017, frá samtals 18 golfkúbbum. Árið 2018 tóku 132 piltar þátt og 46 stúlkur. Árið 2017 voru 157 piltar og 51 stúlka.

Það er sérstaklega gleðilegt að sjá allan þennan fjölda barna og unglinga koma saman til að keppa við sjálfa sig, mótspilara sína og golfvellina sem leikið er á hverju sinni. Það er því miður of langt mál að telja upp alla Íslandsmeistarana en það er full ástæða til óska þeim aftur til hamingju með titlana, sem eflaust mun fjölga eftir því sem þau eldast. Nýtt fyrirkomulag áskorendamótaraðar barna og unglinga hefur fest sig í sessi með aukinni ánægju keppenda og aðstandenda.

Vinnu við stigskiptingu keppnisvalla hefur verið haldið áfram og markmiðið er að skila þeirri vinnu til hreyfingarinnar fyrir Golfþing árið 2019, ásamt vinnu sem snýr að hugsanlegri uppbyggingu á þjóðarleikvangi golfhreyfingarinnar.

Þótt golfsambandið vilji gera vel í mótamálum þá er mikið svigrúm til þess að gera enn betur. Stöðugleiki, samfelldni og faglegheit eru lykilþættir í góðu mótahaldi golfsambandsins og við viljum að upplifun keppenda af mótahaldi okkar sé framúrskarandi. Það verður hins vegar að viðurkennast að skortur á fjármagni og þá sérstaklega starfsfólki við mótahaldið sníðir okkur þröngan stakk. Að þessum málaflokki þarf að huga vel í framtíðinni. Mótanefnd GSÍ hefur lagt mikla vinnu í tillögur sínar fyrir árið 2019 en drögin að mótaskrá eru að finna í fundargögnum. Mótaskrá ársins 2019 er til umræðu á fundinum og vonumst við eftir góðum móttökum með skipulagið.

Samskipti innan hreyfingarinnar
Stjórn sambandsins hélt uppteknum hætti og heimsótti golfklúbba víðsvegar um landið á árinu. Stjórn sambandsins vill gera vel á þessu sviði en því miður gefst ekki alltaf nægur tími til þess. Þessir samráðsfundir með forsvarsmönnum klúbbanna hafa tekist vel og eru mikilvægur liður í bættum samskiptum innan hreyfingarinnar. Líkt og í fyrra ákvað stjórn GSÍ að boða til óformlegs formannafundar í tengslum við framkvæmd Íslandsmótsins í golfi í Vestmannaeyjum í júlí. Það væri óskandi ef fleira forystufólk golfhreyfingarinnar hefði mætt til Vestmannaeyja því forystufólk má gjarnan koma oftar saman heldur en á formannafundum og Golfþingum. Umræðurnar eru mikilvægar, ekki eingöngu fyrir stjórn golfsambandsins, heldur einnig fyrir sjálft forystufókið. Skoðanaskiptin eru holl og það er gagnlegt að skiptast á upplýsingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara.

Á vormánuðum voru haldnir fundir með framkvæmdastjórum golfklúbbanna þar sem ræddu voru þau málefni sem báru hæst á þeim tíma, auk þess sem hugað var að almennum undirbúningi tímabilsins. Einnig voru haldnir fundir í sama tilgangi á Austur- og Vesturlandi með forystufólki á þeim landsvæðum. Markmið okkar er að fjölga þessum fundum í nánustu framtíð.

Á síðasta Golfþingi var ákveðið að ganga til mun nánara samstarfs, en áður hefur þekkst, á milli GSÍ og Landsamtaka eldri kylfinga. Það má því segja að ákveðin, en óformleg, sameining hafi átt sér stað milli þessara tveggja aðila með góðum árangri og jákvæðri reynslu. Fyrrum stjórn LEK myndar nú nefnd eldri kylfinga sem er ein af starfsnefndum golfsambandsins.

Stórafmæli
Á þessu ári fögnuðu nokkrir aðilar innan hreyfingarinnar stórafmælum og eru hamingjuóskir til eftirfarandi klúbba og félagasamtaka áréttaðar.

Golfklúbbur Vestmannaeyja 80 ára
Golfklúbbur Fjallabyggðar 50 ára
Golfklúbburinn Jökull 45 ára
Golfklúbbur Borgarness 45 ára
Golfklúbbur Ísafjarðar 40 ára
Golfklúbbur Bolungarvíkur 35 ára
Golfklúbbur Seyðisfjarðar 30 ára
Samtök atvinnukylfinga á Íslandi (PGA) 30 ára
Golfklúbburinn Oddur 25 ára
Golfklúbbur Djúpavogs 25 ára
Golfklúbbur Hveragerðis 25 ára
Golfklúbburinn Gljúfri 25 ára
Golfklúbburinn Úthlíð 25 ára
Golfklúbbur Staðarsveitar 20 ára
Golfklúbburinn Hvammur 15 ára
Golfklúbburinn Þverá 15 ára

Útgáfu- og fræðslumál
Tímaritið Golf á Íslandi kom út fimm sinnum á árinu og útgáfa rafræna fréttabréfsins hélt áfram frá fyrri árum. Alls voru 26 fréttabréf gefin út á árinu 2018 og fá allir félagsmenn með skráð netfang fréttabréfið sent til sín. Alls voru birtar rúmlega 500 fréttir á golf.is á tímabilinu nóvember 2017 til nóvember 2018. Forsíða golf.is hefur fengið rúmlega 3,2 milljónir heimsókna frá því að fréttavefurinn var opnaður í nóvember 2015. Ljósmyndasafn GSÍ stækkar með hverju árinu sem líður og er mikið notað af fjölmiðlum. Sem dæmi má nefna að myndir úr ljósmyndasafni GSÍ voru notaðar í um 120 golffréttum af alls 230 á einum stærsta netfréttamiðli landsins. Útgáfunefnd GSÍ vekur athygli á því að í tímaritinu Golf á Íslandi er ávallt pláss fyrir áhugaverðar greinar, myndir og annað sem golfklúbbar landsins hafa áhuga á að koma á framfæri.

Störf upplýsingatækninefndar (IT nefndar) hafa staðið yfir undanfarin þrjú ár og erum við afar þakklát öllum þeim sem komið hafa að þessari vinnu, sem er einn mikilvægasti þátturinn í starfi sambandsins. Það er mikilvægt að samstaða sé innan hreyfingarinnar um ákvarðanir sem snúa að upplýsingatækni og framtíð golf.is. Nauðsynlegur þáttur þess er að fá skýrslu frá nefndinni á formannafundum og Golfþingum svo ákvarðanataka geti verið á réttum forsendum. Eins og flestir vita þá hófst forritunarvinna við nýjan hluta vefsins síðasta vetur og vegna þess að vinnan gekk betur betur en áætlanir stóðu til, var ákvörðun tekin um að kynna vefinn til leiks síðastliðið vor. Óhætt er að segja að sú kynning hafi mistekist illa og var vefurinn því tekinn niður, nánast samstundis. Umfangsmeiri prófanir hafa staðið yfir í sumar, með þátttöku margra aðila. Nýi vefurinn hefur nú verið opnaður á slóðinni beta.golf.is en þó ekki verið formlega auglýstur. Golfsambandið hefur átt í góðu samstarfi frá upphafi við fyrirtækið IOS ehf. við uppbyggingu og þróun á vef sambandsins.

Vinna upplýsingatækninefndar mun halda áfram og mun hún t.a.m. kynna afrakstur vinnu sinnar til þessa á formannafundinum en hreyfingin stendur vægast sagt á krossgötum hvað ákvarðanir til framtíðar varðar vegna vefsins. Í samskiptum okkar við nágrannaþjóðir okkar hefur komið í ljós að þau standa frammi fyrir sömu lykilspurningum um framtíðarhlutverk golfsambanda er varða þjónustu í upplýsingamálum.

Golfsamband Íslands hefur notast við samfélagsmiðla í auknum mæli en þar má helst nefna Facebook og Twitter. Þannig hefur okkur tekist að ná til stærri hóps en áður í umfjöllun okkar um golfíþróttina. GSÍ opnaði einnig Instagram reikning á þessu ári. Eldri miðlar standa enn fyrir sínu en útgáfunefnd, í samstarfi við útbreiðslunefnd GSÍ, hefur verið að ræða hugmyndir um það hvar sambandið á að leggja áherslur þegar að kemur að miðlum sínum, almennt séð.

Líkt og undanfarin ár, var golfsambandið með samstarfssamning við RÚV um beina útsendingu frá Íslandsmótinu í golfi, auk framleiðslu og sýningu vikulegra þátta um golf. Núgildandi samningur rennur út um áramótin en viðræður við RÚV um áframhaldandi samstarf eru hafnar þar sem samstarfið hefur verið farsælt undanfarin ár.

Í kjölfar umræðna á formannafundi árið 2014 um breytingu á teigmerkingum valla, stukku nokkrir golfklúbbar á hugmyndina og komu henni í framkvæmd. Markmiðið felst í því að hvetja kylfinga til þess að leika af fremri teigum en áður og þannig auka ánægju af golfleik sínum. Tilraunin hefur gefið góða raun og bætast fleiri golfvellir við á hverju ári. Golfsambandið vill nota tækifærið og hvetja alla klúbba til þess að kynna sér þessar hugmyndir fyrir komandi ár. Fjölbreytileiki í úrvali teiga fyrir kylfinga teljum við vera mikilvægt skref á þeirri vegferð að gera íþróttina enn meira aðlaðandi fyrir alla iðkendur.

Eitt mál rataði á borð aganefndar GSÍ en annars sátu dómstólar sambandsins tómum höndum að þessu sinni. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér dóma dómstóls GSÍ og úrskurði aganefndar, er þeim bent á að hægt er að nálgast þær upplýsingar á heimasíðu sambandsins.

Golfreglur nútímavæddar og nýtt forgjafarkerfi
Golfsambandið hefur undanfarin tvö ár lagt mikla vinnu í undirbúning við að innleiða nýju golfreglurnar sem taka gildi um næstu áramót. Alþjóðadómarinn Hörður Geirsson, ásamt dómaranefnd, hafa lagt á sig ómælda sjálfboðavinnu við þýðingu, samskipti við R&A og undirbúning dómaranámskeiða. Allir þeir sem hafa lagt hönd á plóg eiga bestu þakkir skyldar. Meðvituð ákvörðun var tekin í upphafi árs að halda breytingunum í skjóli fyrir hinum almenna kylfingi þar til í byrjun árs 2019. Vetrinum verður varið í endurmenntun dómara en allir dómarar þurfa nú að uppfæra þekkingu sína í framhaldi af breytingunum. Reglubókinni verður dreift til kylfinga og golfklúbba í byrjun næsta árs, í samstarfi við tryggingafélagið Vörð sem hefur verið ómetanlegur stuðningsaðili GSÍ í tengslum við golfreglurnar undanfarin ár.

Eins og flestir vita þá hefur staðið yfir vinna frá árinu 2011 í tengslum við alþjóðlegt forgjafarkerfi (World Handicap System) sem miðar að því að sameina öll forgjafarkerfi heimsins sem eru nú sjö talsins. Vinnunni lýkur brátt en það sem helst stendur útaf eru samningar á milli Evrópska golfsambandsins (EGA) og stjórnar heimsforgjafarkerfisins (World handicap board) í tengslum við stjórnskipun kerfisins og rétt evrópskra golfsambanda til að ráða yfir sínum eigin forgjafarmálum, innan marka kerfisins. Til stendur að taka kerfið í notkun 1. janúar 2020 en ákveðinn sveigjanleiki verður þó veittur til þeirra þjóða sem ekki verða tilbúnar fyrir þann tíma.

Undanfarin ár hefur útbreiðslunefnd golfsambandsins sett áherslu á aukna þátttöku fjölskyldunnar og þá sér í lagi kvenna í golfhreyfingunni. Einn liður í þeirri stefnu var heimsókn stórkylfingsins Anniku Söremstam. Undirbúningur fyrir komu hennar hófst snemma á síðasta ári og komu margir að verkefninu. Golfsambandið, PGA á Íslandi, Nesklúbburinn og GKG ásamt fleiri klúbbum, samstarfsaðilar, afrekskylfingar og almenningur fengu að njóta nærveru Anniku við ólíka atburði, sem fram fóru á tveggja daga tímabili. Heimsókn hennar vakti mikla athygli og heppnaðist einstaklega vel.

Stelpugolfið var á sínum stað en undanfarin fimm ár hefur PGA, í samstarfi við GSÍ, staðið fyrir Stelpugolfi á Leirdalsvelli. Sérstakur heiðursgestur í Stelpugolfinu var Annika Sörenstam. Stelpugolfið hefur öðlast slíkar vinsældir að aðrir klúbbar á landinu hafa smátt og smátt bæst í hópinn. Við blasir að fleiri klúbbar munu bætast í hópinn á næstu árum en dagurinn hefur nú fest sig í sessi á hverju sumri. Þess má geta að verkefnið er sprottið af lokaverkefni nemenda við golfkennaraskóla PGA.

Alþjóðasamstarf
Frá árinu 2017 hefur GSÍ verið aðili að European Disabled Golf Association (EDGA) en með aðkomu að EDGA gefst íslenskum kylfingum, sem eiga við fötlun að stríða, betri kostur á þátttöku í alþjóðlegum golfmótum. Stjórn GSFÍ, fulltrúar ÍF og stjórn GSÍ hafa átt í mjög góðu samstarfi um framtíðarsýn og tekið saman markviss skref með hag kylfinganna að leiðarljósi.

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, hefur setið í framkvæmdastjórn Evrópska golfsambandsins (EGA) síðastliðin þrjú ár en í fyrra var hann kjörinn næsti forseti EGA (President-Elect). Haukur Örn tekur við stöðu forseta EGA í nóvember 2019, sem hann mun síðan gegna í tvö ár.

Þá var Haukur Örn valinn til þess að taka sæti í stjórn World Handicap System (WHS) fyrir hönd EGA, auk þess sem honum hefur verið falið að leiða samningaviðræður á milli EGA, annars vegar, og R&A og USGA, hins vegar, um aðild evrópskra golfsambanda að forgjafarkerfinu.

Þrír íslenskir golfklúbbar hafa fengið fulla vottun Golf Environment Organization (GEO) en það eru Nesklúbburinn, Keilir og Oddur. Golfsamband Íslands hvetur aðra klúbba landsins til þess að öðlast fulla vottun á næstu árum. Mikilvægt er að forystufólk golfklúbba geri sér grein fyrir mikilvægi umhverfisvottunar fyrir fjölmarga þætti í rekstri klúbba, ekki síst umhverfisins vegna.

Að öðru leyti hefur GSÍ átt í farsælu samstarfi við alþjóðlegu íþróttasamtök, eins og STERF, IGF, IOC og R&A.

Afreksmál
Afreksfólkið okkar hefur átt ágætu gengi að fagna undanfarið ár en betur má ef duga skal. Breiður hópur íslenskra kylfinga sækir nú fram á erlendri grundu, bæði áhugamenn og atvinnumenn, sem gera atlögu að sterkustu mótaröðum heims. Þess má geta að umræðan um áhugamennskureglurnar og nauðsynlegar breytingar á þeim verður sífellt háværari enda golfíþróttin ein fárra íþróttagreina sem enn heldur í hefðina varðandi skilin á milli áhugamennsku og atvinnumennsku.

Meðal helstu afreka ársins má nefna:
Íslenskt landslið atvinnukylfinga varð Evrópumeistari í blandaðri liðakeppni og lenti karlaliðið í öðru sæti sama móts.
Haraldur Franklín Magnús lék á Opna breska meistaramótinu, The Open Championship, og varð þar með fyrsti íslenski karlkylfingurinn sem tekur þátt í risamóti.
Íslendingar áttu þátttakendur á Ólympíuleikum ungmenna þegar þau Ingvar Andri Magnússon og Hulda Clara Gestsdóttir, bæði úr GKG, kepptu fyrir Íslands hönd.
Birgir Leifur Hafþórsson komst á lokastig úrtökumóts Evrópumótaðarinnar en náði því miður ekki að tryggja sér fullan þátttökurétt á mótaröðinni.
Íslenska piltalandsliðið endaði í 2. sæti í 2. deild Evrópumóts landsliða og tryggði sér þátttökurétt í 1. deild að ári.
Valdís Þóra og Ólafía Þórunn eru báðar, eins og stendur, inni á lista fyrir næstu Ólympíuleika.
Valdís Þóra náði þriðja sæti á LET móti, sem er besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á mótaröð í efsta styrkleikaflokki.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir leikur á lokaúrtökumóti LET mótaraðarinnar í desember.

Að öðru leyti er vísað til skýrslu afreksstjóra GSÍ um árangur okkar landsliðsfólks og atvinnukylfinga á árinu.

Forskot, afrekssjóður kylfinga, hélt áfram göngu sinni á árinu og samanstendur Forskotsfjölskyldan af sjö aðilum – Golfsambandi Íslands, Íslandsbanka, Eimskip, Valitor, Icelandair Group, Bláa Lóninu og Verði. Hver aðili leggur sjóðnum til 3,5 milljónir króna á hverju ári sem þýðir að 24,5 milljónum króna er úthlutað árlega úr sjóðnum til okkar fremstu kylfinga. Golfsamband Íslands vill þakka aðilum sjóðsins fyrir allan þann ómetanlega stuðning sem þeir hafa sýnt íslenskum afrekskylfingum.

Árið 2016 gerðu Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands með sér samning sem hefur falið í sér stóraukin framlög til íslensks afreksíþróttafólks. Á þessu ári var 300 milljónum króna úthlutað úr sjóðnum og hlaut golfsambandið úthlutun upp á 27,4 milljónir á árinu en GSÍ er í hópi svokallaðra A-sérsambanda innan sjóðnum. Viljum við nota tækifærið og þakka ÍSÍ fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða.

Rekstur sambandsins
Rekstraráætlun golfsambandsins gerði ráð fyrir um 3,5 milljóna króna hagnaði á árinu og stóðust þær áætlanir. Heildarvelta sambandsins var tæpar 200 milljónir króna, samanborið við 187 milljónir króna árið 2017. Það felur í sér um 12 milljóna króna veltuaukningu milli ára, sem aðallega má rekja til aukinna framlaga úr afrekssjóði ÍSÍ.

Tekjur sambandsins af samstarfsaðilum voru undir væntingum en þar má helst nefna að samningur við aðalsamstarfsaðila sambandsins, Eimskip, lækkaði umtalsvert frá fyrra ári.

Stjórn golfsambandsins reynir ávallt að sýna varkárni og aðhald í rekstri og er það stefna stjórnar að eigið fé sambandsins verði ekki lægra en 15-20% af heildargjöldum þess á hverjum tíma til að tryggja að hægt sé að taka við óvæntum áföllum. Ánægjulegt er að segja frá því að við höfum nú náð að halda okkur nærri því markmiði. Þá er það jafnframt langtímamarkmið sambandsins að auka sértekjur sambandsins þannig að hlutfall tekna af félagagjöldum lækki niður í þriðjung.

Að lokum
Segja má að golftímabilið hafi farið hægt og illa af stað. Veðrið var slæmt, með lágu hitastigi og mikilli úrkomu. Aðstæður eins og uppi voru langt fram í júlímánuð geta verið örlagaríkar fyrir rekstur golfklúbba á Íslandi, sérstaklega þá klúbba sem byggja afkomu sína að stórum hluta á sölu vallargjalda. Dæmi eru um að tekjur golfklúbba hafi dregist saman um allt að 30% frá síðasta ári vegna þessa. Þá bárust mjög dapurlegar fréttir á vormánuðum, þegar að stjórn Golfklúbbsins Geysis tjáði stjórn sambandsins að völlurinn hefði lent í miklu tjóni vegna kals og tvísýnt væri með rekstur klúbbsins að svo stöddu, þar sem völlurinn væri óleikhæfur.

Kylfingum á Íslandi hefur fjölgað verulega á síðustu 20 árum og hefur fjölgunin verið nokkuð jöfn í gegnum árin. Á þessu ári fjölgaði kylfingum um 1% og er heildarfjöldi skráðra kylfinga nú 17.165. Til samanburðar þá fækkaði skráðum kylfingum á Norðurlöndunum um 3-4% að meðaltali á árinu. Mikilvægt er að huga vel að æskulýðsstarfi í klúbbunum þar sem við sjáum að meðalaldur hreyfingarinnar er að hækka.

Ísland er að komast á kortið sem áfangastaður fyrir erlenda kylfinga en samtökin Golf Iceland hafa undanfarin ár unnið markvisst og gott starf að markaðssetningu erlendis. Í dag eru 17 golfklúbbar í samtökunum og þar af hafa 6 þeirra haldið mjög vel utan um tölfræði í tengslum við heimsóknir erlendra kylfinga. Árið 2017 keyptu erlendir kylfingar um 2.450 hringi á þeim sex völlum, sem héldu utan um skráningu, en í ár voru hringirnir rúmlega 2.000 hjá þessum sömu klúbbum, en um er að ræða 14% samdrátt á milli ára. Má rekja samdráttinn til slæmra veðurskilyrða á fyrri hluta sumars.

ÍSÍ hefur hvatt íþróttahreyfinguna til þess að sinna almenningsíþróttum og lýðheilsu en golfsambandið hefur undanfarin misseri unnið að því að setja þennan málaflokk á dagskrá sína. Mikilvægt er að golfsambandið og öll aðildarfélög fari vel yfir sínar forvarnir og aðgerðaráætlanir sem snúa að kynbundnu ofbeldi innan íþróttahreyfingarinnar og reyni að samræma verklag eftir bestu getu.

Á árinu tóku ný persónuverdarlög gildi (GDPR) en golfsambandið vinnur nú, í nánu sambandi við ÍSÍ og Advania, við að kortleggja þau skilyrði sem lögin setja. Þegar þeirri vinnu lýkur mun golfsambandið upplýsa hreyfinguna um hvaða skilyrði golfklúbbarnir þurfa að huga betur að.

Árið 2013 setti golfhreyfingin sér nýja stefnu fyrir tímabilið 2013-2020, í kjölfar umfangsmikillar stefnumótunarvinnu. Það er mat stjórnar golfsambandsins að stefnan hafi gefist vel og reynt hefur verið að fylgja henni eftir bestu getu. Eftir á að hyggja var stefnan e.t.v. full almennt orðuð auk þess sem tiltekin mælanleg markmið lágu ekki nógu skýrt fyrir. Þá var nokkuð óljóst hvernig hlutverkaskiptingu milli ólíkra aðila ætti að vera háttað. Það er kominn tími til að hefjast handa við nýja stefnu golfsambandsins til næstu ára. Á þessum formannafundi verður sérstöku kastljósi beint að þessu málefni.

Framundan eru spennandi tímar með krefjandi tækifærum. Með tilkomu nýrra golfreglna og nýs forgjafarkerfis mun íþróttin óhjákvæmilega breytast umtalsvert. Golfíþróttin er nokkuð íhaldssöm og yfirleitt er aðdragandi breytinga langur og taka þær ekki gildi nema að vel athuguðu máli. Nýjar áskoranir sem þessu munu fylgja eru mikið tilhlökkunarefni og fróðlegt verður að fylgjast með því hvaða áhrif þær koma til með að hafa á íþróttina. Það er þó óhætt að fullyrða að þessa breytingar munu verða til framdráttar og auka veg og vanda íþróttarinnar sem og ánægjuna sem fylgir því að leika golf. Samstaða innan hreyfingarinnar á þeirri vegferð sem er framundan er lykilatriði og mun tryggja betur framfarir íþróttarinnar í heild sinni.

Að lokum vill stjórn Golfsambands Íslands þakka öllum forsvarsmönnum, starfsfólki og sjálfboðaliðum golfklúbbanna fyrir samstarfið á árinu og óskar þeim velfarnaðar á því næsta.

Haukur Örn Birgisson,
forseti Golfsambands Íslands

Valmynd